fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Úlpa og húfa og 40 ára vandamál

Ekki finnst mér það miklar fréttir að horfa á andlitslausa úlpu og húfu tjá sig um ofbeldi á Kópavogsbraut 9.
"Starfsmaðurinn var 1.90 en ég var pínulítill, kannski 40 kíló... og hann henti mér bara upp í loftið".

Ég ólst upp í Kópavogi og fór stundum að heimsækja krakka sem áttu heima á unglingaheimilunnum. Þetta voru oft hressir krakkar. Villtir og kátir, orkumiklir og trámatíseraðir stígvélaðir kettir. Ég man að oft voru starfsmenn þarna lítið eldri en krakkarnir sem voru á unglingaheimilunum...og allir álíka áttavilltir.

Glæsilegt samt að það sé verið að vinna í því að reyna að uppræta ofbeldi inni á stofnunum.
Fínt að byrja á því sem gerðist fyrir 40 árum síðan... en vonandi verður það afgreitt fljótt og örugglega.

Mér finnst nefninlega svolítið mikilvægara að taka til dæmis á þeirri Mengele starfssemi sem gamalt fólk á elliheimilum verður fyrir.
"Já er hún Fjóla okkar búin að vera æst? Eigum við ekki bara að skella í hana aðeins meira Librium, kannski nokkrum dísum og dassi af kontalgeni...."
Þetta er hreinlega staðreynd. Ef við verðum svo óheppin að þurfa að enda á svona stað þá megum við búast við því að vera skilin eftir á klósettinu tímunum saman, að það verði skellt í okkur pillum sem við vitum ekkert hvað gera við geðið í okkur, að fólkið sem annast okkur sé harðhent og kunni ekki íslensku, að við verðum einmana og döpur og deyjum að öllum líkindum af þeim orsökum fremur en líkamlegum meinum í ríkisreknu dópgreni.

Þetta finnst mér MJÖG mikilvægt að verði skoðað. Allir sem hafa unnið á elliheimilum vita að þetta er staðreynd og líkt og allir sem hafa unnið í kjötvinnslu borða ekki pylsur þá ætlar enginn sem hefur unnið á elliheimili að enda ævina á slíkum stað.

Svo væri ráð að stöðva kaupmenn (svínin í Animal farm) í því að hækka vöruverð fyrir lækkun virðisaukans svo að foreldar þurfi ekki að halda áfram að vera úti að vinna yfirvinnu til að eiga fyrir mat sem verður til þess að börnin verða ein heima og afskipt með enga mömmu eða pabba að tala við sem leiðir til vanrækslu sem leiðir til lélegs sjálfsmats og persónuleikaraskana sem leiða til fíknar sem leiðir til þess að hringrásin heldur áfram og öll þessi vandamál verða stærri og flóknari... kynslóð fram af kynslóð.

Ha?