Ríðið okkur
Þetta byrjaði allt við seinna stríð þegar 14 ára stelpur stálust í braggana til að leggjast undir einkennisklædda hermenn. Í staðinn fengu þær nælon og nammi. Þar með var galdurinn lagður á landið og álög um leið. Við vorum seld.
Nú, eru það jakkafataklæddir bubbar sem girða niðrum sig og bjóða stjörnuna þeim sem eiga nógu fjandi mikinn pening. Titillinn á einni af bókum Hugleiks Dagssonar gæti verið yfirskriftin á nýrri herferð Icelandair. Í þetta sinn eru það ekki fagrar, lauslátar ljóskur með freknur og bólginn barm sem bjóða erlendum karlmönnum ókeypis útsígútsí, heldur eru það vel dressaðir þingmenn sem beygja sig fram og yfirskriftin er einfaldlega
- Ríðið okkur!
Það stendur semsagt að öllum líkindum til að byggja álver við Húsavík. Húsvíkingar alsælir af því nú mun loks eitthvað gerast í þessum bæ sem var í dauðateygjunum ef marka má yfirlýsingarnar. Nú mun líf færast í bæinn og fólk fá vinnu. Allt mun iða af menningu og fjöri. Álverið mun spretta í því sem Húsvíkingar upplifa á sama hátt og piltarnir í Trainspotting þegar þeir ætluðu að njóta náttúrunnar; The great outdoors.
Einhver ljótur grár mói sem þjónar engum tilgangi. Um að gera að virkja hann og fá líf í bæinn. Uh?
En hvernig verður þetta líf? Verður þetta ekki bara eins og eitthvað kolanámuþorp í Wales. Fólk meira eða minna vinnandi einhverja ógeðsvinnu og blindfullt þess á milli. Aðkomufólkið aðallega útlendingar frá öðrum löndum. Löndum þar sem ekki er næga vinnu að fá -og öfugt við íslenskt landsbyggðarfólk, þá setur það það ekki fyrir sig að þurfa að færa sig um set til að fá eitthvað að gera.
En nei, það geta bændur ekki látið sig hafa. Frekar að hanga í þessum þorpum og grenja og fagna því svo svaklega að fá álver þangað. Af því álver eru svo falleg og príða umhverfið svo mikið. Af því álver eru auðlind og ferðamenn sem koma til eyjunnar hreinu hafa svo gaman af því að skoða álver. Hverjum er ekki sama um helvítis móann?
Á sama tíma og þetta er að gerast velta gráðug börn inn í Kringluna og Smáralind, dressuð upp eins og Silvía Nótt. Silvía Nótt sem sniffar smarties eins og kókaín; Silvía Nótt sem tottar banana eins og t***y; Silvía Nótt sem kreistir melónur; Silvía sem syngur “hinar tíkurnar eru bólugrafnar en ég er hrein mey” og litlu börnin taka undir og foreldrunum finnst það bara krúttlegt og sætt og standa ekkert í því að útskýra eitt eða neitt af því þau eru alveg jafn lost og blessuð börnin. Þeim finnst alveg jafn gaman að fylla Bónuspokana sína af “nammi”. Þeim finnst bara kósí að fara í Smáralindina á sunnudögum. Þau langar líka til að verða fræg.
Á sama tíma stinga Bónusfeðgar upp á því að fylla upp í sjóinn og stækka Seltjarnarnes til að geta komið fyrir stærra og bleikara svíni á nesið. (Blessunarlega afþakkaði bæjarstjórinn).
Á sama tíma syngur Rósa Guðmunds í fyrsta sinn í íslensku útvarpi eftir að hafa verið framan á og inni í blöðum í sjö ár.
Á sama tíma íhuga ég að flytja til Bahrain.
|