miðvikudagur, desember 04, 2002

Er aðeins farin að róast enda klukkan orðin fimm og bara þrír tímar eftir af vaktinni. Þessir þrír tímar eru yfirleitt frekar fljótir að líða og ég er hress með það. Svo er eitthvað gott og blessað að koma yfir mig og það er bara eitthvað hrátt rokk sem sogast inn í sogæðarnar og upp í heila og lætur mig sjá eitthvað allt annað fyrir mér en að sitja í hvítum buxum og inniskóm og bláum bol fyrir framan flatan tölvuskjá á elliheimili.

Beta rokkur, Sigurjón Kjartans og Erpur eru víst kominn í eitthvað hóp rifrildi og niðurrifs flipp. Skilaboðin eru einföld sýnist mér: Beta á að fara í megrun, Sigurjón á að krydda þáttinn og Erpur á að hætta að sofa hjá unglingum. Þau ættu eiginlega að fara bara á Múlakaffi og ræða þetta yfir kódilettu og kaffibolla. Fá sér sveskjugraut í desert. Óþarfi að vera að æsa sig yfir svona tittlingaskít. Beta er samt óþarflega að æsa sig held ég. Hún nennir að svara öllum. Ekki myndi ég nenna því... enda orðin vön því að ókunnugir séu að hafa á mér skoðun og halda eitthvað sem er bara út í bláinn. Það byrjaði þegar ég hóf samskipti við samfélagið... hva... 3 ára eða svo... svona er þetta bara. Sýnir bara að maður virkar og gerir aðra öfundsjúka, en öfund er hinsvegar þeim ótrúlega eiginleika gædd að enginn vill viðurkenna hana og það er hégómi að halda því fram að maður sé öfundaður. Hún er svona eins og spegilmyndin sem birtist ekki þegar vampíran lítur í spegil.