sunnudagur, nóvember 03, 2002

Tilfinningaklám og Kjáni

Klám þýðir upprunalega "illa eða hroðvirknislega unnið verk" Mér finnst Jerry Sringer vera klám -Tilfinningaklám, (en ég hef mjög gaman af akkúrat Jerry Springer). Orra frænda finnst Lars Von Trier gera tilfinningaklám sem honum finnst hryllilegt. Ég er ekki alveg sammála honum en ég verð að viðurkenna að ég hef enn ekki þorað að horfa á Myrkradansarann af því það er eitthvað tilfinningaklámfengið við Björku leika blindan, ófarsælan, tékkneskann verkamann. Ekki það að mér finnist neitt að henni, ég bara hef ekki lagt í þetta ennþá.

Skellti mér í sparifötin í gær og fór á ball. Ballið var fyrst á Kaffibarnum þar sem ég talaði við hinn og þennann. Fyrst talaði ég við stelpu sem var ekki búin að sofa hjá í hálft ár. Hún sagðist hafa staðið sig að því að fantasera um pabba æskuvinkonu sinnar sem hún sá á öðru kaffihúsi fyrr um kvöldið. Þetta fékk svo á hana að hún labbaði út. Það hjálpaði ekki heldur að hún sat til borðs með stelpum sem áttu allar krakka.... "Ég rifnaði ekki en ég fékk samt slit.".... "Þurfti að klippa hjá þér?" ...og eitthvað þannig. Hún stóð bara upp og fór. Ég hefði gert það sama. Talaði líka mikið við ungann mann. Hann sagði mér að hann hefði óvart farið til Grænlands um daginn þar sem hann veiddi 700 kíló af grálúðu. Það hefur eflaust verið hressandi. Ég sá fisk í Mogganum í gær sem heitir Kjáni. Það hafa fimm veiðst við landið en þessi var stærstur. Hann er bleikur og með fýlusvip og hala. Uppfrá því fór ég að hugsa um allt lífið í sjónum sem er óuppgötvað. Það er nú ekkert smáræði. Sumstaðar er sjórinn svo djúpur að ekki nokkur mannleg vera gæti komist svo langt án þess að hausinn myndi springa. Kannski er miðgarðsormurinn til? Væri það ekki gaman! Svo pældi ég í því að allar myndirnar sem við höfum séð af jörðinni láta hana líta út eins og fallega græna og bláa kúlu, en í raun, ef maður tæki sjóinn í burtu, þá liti hún út eins og hraunmoli. Öll hrjúf og skrítin. Eins og fólkið á henni.

Eftir KB fór ég á Prikið þar sem Gullfoss og Geysir trylltu mannskapinn. Það var agalega gaman og maður endaði á borðinu, dansandi eins og Sammy Davis JR. á djöfladýrkendaballi. Allir rosa glaðir. Mjög hressandi.