SMS
Fór á Brennsluna. Umræðurnar fóru fljótlega að snúast um samskiptamunstur kynjanna þegar þau eru að byrja að deita. SMS sendingar hægri vinstri. Einu sinni var strákur eitthvað að sverma í mér og við fórum að senda hvort öðru sms. Á endanum var ég komin með svona massaþumal af öllum sendingunum þannig að ég hringdi bara í hann og sagði hæ. Hann varð smá stressaður og ég líka, en eins og það sé ekki allt í lagi? Það er ekkert hægt að vera alltaf að senda einhver snubbótt SMS. Fólk á bara að álpast til að hugsa upp eitthvað plan, hringja svo og segja "Hey, viltu koma með mér í Eden eða sund eða keilu" eða eitthvað og annaðhvort vill manneskjan það eða ekki. Það er svo furðulegt allt þetta í kringum að koma sér á séns og hvernig maður á að hegða sér, hvenær á að hringja, hvernær á að sleppa því o.s.frv. Svo er líka oft eins og við vitum ekkert hvað við erum að eltast við. Það er eitthvað svona helmingað dæmi í þessu. Eitthvað hálfkák og rugl: þori ekki, vill ekki, kann ekki, skil ekki... Ætli það gerist stundum að lífsförunautar fara á mis hvort við annað af því hvorugt þekkir og þorir að standa með tilfinningum sínum? Eða kannski ekki endilega lífsförunautur, það er frekar úrelt hugtak, en allavega einhver sem manni gæti liðið rosa vel með í langann tíma. Þetta deit vesen er mjög flókið mál hjá flestum, ef ekki öllum sem ég þekki. Ég held að Eden aðferðin verði að ráða. Gef hana hér með öllum sem nenna að lesa þessa síðu...Hringja bara og segja "Viltu koma í Eden? Ef þú átt bíl þá á ég bensín." Ef maður á sjálfur bíl þá er það náttúrlega mjög gott. Þá getur maður verið höfðingi, hringt og sagt "Veistu hvað heppna ástardúfa?! Ég býð þér í Eden".
Það er alveg ótrúlega lélegt formið á þessu í allt of mörgum tilfellum. Ég meina... Hittast á skemmtistað. Fara full heim að ríða. Fletta hvort öðru upp í þjóðskrá á sunnudegi. Senda SMS á mánudegi og út alla vikuna. Hanga svo á sama bletti og bíða þess að hann eða hún dúkki upp til að það sé hægt að fara aftur full heim að ríða. Hver vill þetta??
Ég neita að trúa því að það sé þetta sem fólk kýs sér. Eden og pílukast eru málið. Frekar á maður að taka sénsinn á því að vera stressaður í pílukasti í tvo tíma en að vera að hanga í SMS sendingum fram eftir öllu. Ha? Er þaggi? Frelsum land og þjóð frá ánauð SMS skeytanna. Lengjum opnunartímann í Eden!
laugardagur, nóvember 02, 2002
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|