miðvikudagur, desember 14, 2005

Pepp pistill

Í dag voru birtar niðurstöður úr rannsókn sem HÍ lét gera á hlut kvenna í fjölmiðlum. Niðurstöðurnar voru þær að karlmenn eru amt. 75% oftar í fjölmiðlum en konur og það á við um fréttir, auglýsingar, íþróttaumfjöllun, sjónvarpsþætti, fréttatengda þætti osfrv. Í öllum tilfellum nema einu eru karlar fleiri. Það er þegar kemur að fyrirsætum, þá eru þeir bara 15%.

Þetta segir manni hvað? Að konur séu bara ekki að gera neitt spennandi? Að þær hafi ekkert að segja? Að þær séu ekki sérfróðar á ýmsum sviðum? Að....

Þetta segir, í mjög einfölduðu og stuttu máli að konur verða að vera sætar til að fá aðgengi í fjölmiðla og þá skiptir engu máli hvað þær hafa að segja um eitt eða neitt, eða hvað þær geta. Það er nóg að vera sæt. Þetta flokka ég ekki undir það að vera metin að verðleikum. "Ég er sæt" flokkast ekki undir verðleika.

Gagnrýnivert. Finnst þér ekki?

"Ég er sæt" verðleika firringin, er m.a. ástæðan sem liggur að baki anórexíu. Stelpur halda að til þess að einhver taki mark á þeim, til þess að þær séu sýnilegar, til þess að þær fái kredit sem manneskjur, hugsandi manneskjur, þá verði þær að vera fallegar... og grannur líkami er vissulega talinn fegurri en feitur (af flestum).

Strákar hinsvegar geta verið allskonar, og samt fengið að starfa sem þáttastjórnendur ofl. Sjáðu bara Egil Helga. Ekki er hann sætur, en hann stjórnar "kallaspjallþætti" og margir myndu vilja verma hans sæti. Ekki er Halldór Ásgrímsson mjór, ekki Guðni, ekki þurfa þessir þingmenn að vera grannir og sætir... en tékkið á konunum. Þær eru allar afburða myndarlegar.

Ég, og fleiri, erum bara orðin ógeðslega þreytt á þessu rugli. Það væri svo næææssss ef fólk bæri sömu virðingu fyrir kvenlegum gildum og kvenleika og karlmennsku.

"Þú hleypur eins og stelpa" "Þú keyrir eins og kerling" "Ertu að grenja eins og stelpa"...

Það væri eins hægt að skipta orðinu "stelpa" út með orðinu "fáviti".

"Þú hleypur eins og fáviti" "Þú keyrir eins og fáviti" "Ertu að grenja eins og fáviti"...

Prófum að setja orðið "strákur"...

"Þú hleypur eins og strákur" "Þú keyrir eins og strákur" "Ertu að grenja eins og strákur"...

Strax skárra. Hvað er það? Hvað er að?


Og ef hlutur kvenna og karla er 50/50 í fjölmiðli, t.d. blaði, þá upplifa flestir blaðið sem kvennablað... og það þykir ekki fínt... þannig að ósjálfrátt forðast það fólk sem stjórnar fjölmiðlum að gera hlut kvenna virkari svo að þetta verði nú ekki eitthvað "kerlingablað".

Og þið, stelpur sem eruð að rífa ykkur og skiljið ekki merking orðsins feministi... Ef ekki væri fyrir svokallaða "feminista" þá hefðuð þið ekki kosningarétt í dag.
Og þið mættuð ekki fara í skóla. Think about it.

Í dag erum við bara að reyna að búa til heim fyrir barnabörnin okkar. Það eru núna 90 ár síðan konur fengu rétt til að kjósa. Kannski eftir 50 ár verðum við með sömu laun og karlar fyrir sömu störf. Kannski eftir 50 ár þurfum við ekki að leggja tvisvar sinnum harðar að okkur til að komast í sömu stöður.

Núna erum við öll meira eða minna haldin kvenfyrirlitningu í einni eða annari mynd. Bæði karlar og konur. Að bera ekki jafn mikla virðingu fyrir konum og körlum er síað inn í vitund okkar gegnum kynslóðaminni og arf.

Við þurfum bara að halda fyrir nefið og hætta þessu rugli til að koma á breytingu. Við þurfum að virða kvenleika jafn mikið og karlmennsku og gera jafnhátt undir höfði. Listakona á ekki að þurfa að kalla sig listamann til að fá virðingu og ráðherra sem er kona á ekki að þurfa að kalla sig "herra".

Það er vel hægt að breyta heiminum. Það tekur smá tíma. Fyrst er að breyta sjálfri sér (ertu ekki annars manneskja stráksi minn, persóna, þú sjálf...?) Og svo breytist heimurinn smátt og smátt.

Ég segi bara eins og Hallgrímur... Þetta er allt að koma!