þriðjudagur, september 20, 2005

Öl er böl

Af hverju finnst mörgum gaman að drekka þó það sé ekki rassgat gaman? Eru þetta kannski bara nýju fötin keisarans? Er þetta virkilega svona "gaman"? Er maður að "skemmta" sér þegar maður er að "skemmta" sér? Hvað er svona gaman við það að vera í vímu og geta ekki hugsað alveg skýrt, tala of hátt, geta ekki keyrt og geta ekki gert dodo eins og maður?

Það var miklu skemmtilegra ÁÐUR en manni fannst það allt í einu kúl að vera fullur. Það var ógeðslega gaman t.d. að vera 12 ára að kyssa Ella á meðan Meat Loaf söng Two out of three aint bad. Við urðum rosalega rauð í kinnum. Ekkert full. Maður var svo ókomplexeraður svona pre-drinkin. Lífið var mikið meira æsandi svona ómengað. Svo fór maður að drekka og þá kom komplexalestin á hraðferð. Allt í einu varð það eitthvað issjú að langa í sleik og til að þora að viðurkenna að sleikur væri frábær hugmynd þá varð að skella í sig krypplingi eða Torres.

Man þegar ég fór full í sleik við Gunna. Sleikurinn entist í klukkutíma á meðan Mike Pollock söng Where are the bodies á repeat. Klukkutími er allt of langur tími til að vera í sleik. Maður var alveg skorpinn eftir þetta með sprungnar varir.

Mörg góð mannsefni fara í súginn af þvi þeim finnst svo "gaman" að vera full. Margar góðar konur verða asnalegar, vitlausar og sjabbí af því þeim finnst svo gaman að vera fullar.
Af hverju verður ekki bara sett vínbann aftur? Mér finnst þetta helvítis vesen þetta brölt á fólki.
Það er skellt í sig einum, tveimur, þremur, fjórum og eftir fjögur hristast pulsan og remólaðið í bland við vodka og kók á meðan skrokkurinn remibist með öðrum skrokki í tilfinningalausum kjötskrokkaslag í óhreinu rúmi í Reykjavík. Af því það er svo gaman að fara út að skemmta sér. Það er svo gaman að fá sér í glas. "Djöfull var gaman í gær maður!"

Margur góður maðurinn hefur misst sjarmann í mínum augum vegna þess að honum finnst svo gaman að "fá sér í glas". Og það er einmitt meinið. Þessir sem fíla svo að "fá sér í glas" eru oftar en ekki þeir skemmtilegustu í bekknum. Svona framan af, eða þangað til glasinu finnst skemmtilegt að fá sér þá. Þegar skugginn holdgerfist og maðurinn visnar upp og hverfur.

Mér fannst gídeonslegi presturinn sem var í Kastljósi ekki eins ömurlegur og Þórdísi.
Mér fannst hann reyndar svona hálf væminn og vattpinnalegur en hann hafði þó eitthvað til síns máls. Ég held að árs bindindi myndi gera íslensku þjóðinni gott. Það og ekkert sjónvarp í Júlí og ekkert á fimmtudögum í svona eitt ár. Bara sem tilraun. Aðhald er ágætt. Við vöðum uppi, djúsandi, haldandi framhjá með allt á yfirdrætti og óverdósum á sjónvarpi sem aldrei fyrr. Já. Nú er kominn tími á meinlæti! Hingað og ekki lengra! Hráfæði, föstur og þarmaskolun. Út með King Karnival, inn með andann! Koma so krakkar! Koma so!!

Er þetta nú ekki fulllangt gengið Magga?
Róleg.